Samfélag og umhverfi
Reitir tóku ákveðin skref í átt að sjálfbærni á árinu 2021. Kolefnislosun af rekstri hélt áfram að lækka og við bættum okkur í flokkun úrgangs í framkvæmdaverkefnum. Unnið er að því að kortleggja orkunotkun leigutaka í öllum okkar byggingum.
Samfélagsskýrsla Reita 2021
Samfélagsskýrslan er unnin í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq og skiptist í þrjá meginkafla; umhverfi (E), félagslegir þættir (S) og stjórnarhættir (G).
Áfram unnið að vottun húsnæðis Reita
Unnið er að BREEAM In-use vottun Skaftahlíðar 24, skrifstofu Landspítala. Húsið verður þriðja hús Reita til að hljóta vistvottun en húsnæði Umhverfisstofnunar hlaut Svansvottun fyrir endurbætur húsnæðisins í fyrra.
Byggingarnar við Skaftahlíð 24 voru endurnýjaðar af miklum metnaði árið 2019, sú vandaða vinna skilar sér nú í því að mjög litlar breytingar þarf að gera til að hljóta vottun.
Samstarf og skuldbindingar á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni
-
Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð
Reitir er aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Hlutverk hennar er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð fyrirtækja, stofnana og hvers kyns skipulagsheilda til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni.
-
Loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar
Reitir undirrituðu yfirlýsinguna árið 2015 sem fól í sér aðgerðir í loftslagsmálum; skuldbindingu um minnkuð loftslagsáhrif, minni losun úrgangs auk þess að birta niðurstöður mælinga. Rúmlega 100 önnur fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í loftslagsyfirlýsingunni.
-
UFS viðmið Nasdaq
UFS viðmið Nasdaq á Norðurlöndunum snúa að upplýsingagjöf um starfsemi og áhrif skráðra fyrirtækja út frá umhverfi, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS).
-
Grænni byggð
Reitir voru meðal stofnaðila Grænni byggðar 2010 og hafa stutt samtökin með fjárframlagi og vinnu starfsfólks síðan. Auk þess hafa samtökin hlotið stuðning í formi húsnæðis undanfarin tvö ár. Grænni byggð er samstarfs og fræðsluvettvangur um sjálfbæra þróun byggðar.
-
IcelandSIF
Tilgangur IcelandSIF er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.
Endurnýtingaráætlanir skila árangri
Á árinu 2021 voru unnar endurnýtingaráætlanir fyrir þrjár byggingar sem stendur til að rífa að hluta eða öllu leiti. Markmið þierrar vinnu er að kortleggja byggingarefnin og koma auga á endurnýtingarmöguleikana. Einnig er kolefnisspor sem bundið er í byggingarefnin reiknað.
Tekið var saman magn og flokkunarhlutfall úrgangs í stærstu niðurrifsframkvæmdum Reita á árinu. Í stærstu framkvæmdinni, við Ármúla 7, urðu til rúmlega 170 tonn af úrgangi og flokkunarhlutfall var 95%. Markmið Reita er að hlutfallið verði a.mk. 90% í öllum framkvæmdum.
Borðplötur á Finnsson Bistro, sem opnaði á þriðju hæð Kringlunnar á árinu, voru gerðar úr endurnýttu parketi. Þetta er eitt dæmi þess að byggingarefni séu endurnýtt. Þá voru 4 tonn af notuðum teppaflísum send í endurvinnslu hjá framleiðanda, þar sem framleidd verða ný teppi úr efninu.
29% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda 2021.
Reitir kolefnisjafna losun vegna starfsemi sinnar og fasteigna sem félagið hefur umráð yfir hverju sinni auk ferða starfsfólks til og frá vinnu. Stefnt að 5% árlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Kolefnisjöfnun fer fram í samvinnu við Votlendissjóðinn vegna ársins 2021, er þetta annað árið í röð þar sem kolefnisjafnað er með þeim hætti. Reitir voru meðal stofnaðila sjóðsins árið 2018.
Með endurheimt votlendis má stöðva losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið auk þess sem það styður við líffræðilegan fjölbreytileika og endurheimt vistkerfa.
Áherslur Reita innan Heimsmarkaða Sameinuðu þjóðanna
-
Góð atvinna og hagvöxtur
-
Sjálfbærar borgir og samfélög
-
Ábyrg neysla og framleiðsla
Lagt á vogarskálarnar í baráttunni gegn Covid-19
Reitir lánuðu heilbrigðisyfirvöldum Suðurlandsbraut 34. Húsið hefur verið ein aðal bækistöð yfirvalda í baráttunni við veiruna.
Aukin fjölbreytni í atvinnulífinu með Specialisterne í áratug
Reitir hafa stutt Specialisterne með húsnæði í Síðumúla í nærri áratug. Markmiðið er að aðstoða ungt fólk á einhverfurófi við að komast á vinnumarkaðinn. Starfsemin í Síðumúla byggist á því að einstaklingarnir mæta daglega og fá aðstoð við að þjálfa upp styrkleika sýna ásamt því að tekið er á veikleikum. Einstaklingsmiðuð áætlun er gerð þar sem þjálfuð er tölvufærni, farið í líkamsrækt og mikil áhersla er lögð á stundvísi og mætingu. Endamarkmiðið er atvinnuþáttaka einstaklinganna og fer ríflega helmingur í vinnu. Aðrir fara í áframhaldandi nám eða önnur úrræði.
Viðurkenndir góðir stjórnarhættir
Reitir hlutu á árinu viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Reitir hafa hlotið viðurkenninguna árlega síðan 2015. Viðurkenningin er veitt á grundvelli úttektar á stjórnarháttum félagsins og tekur hún mið af leiðbeiningum um góða stjórnarhætti útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi. Þessir aðilar, auk Stjórnvísi, veittu viðurkenninguna.
Verkefninu Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum er ætlað að bæta stjórnarhætti fyrirtækja á Íslandi og auka eftirfylgni stjórna þeirra við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Í verkefninu felst að fyrirtæki þurfa að undirgangast úttekt á stjórnarháttum sínum, sem framkvæmd er af viðurkenndum aðilum, til að hljóta viðurkenninguna.